Samskipti

Hæfni í félagslegum samskiptum og upplýst ákvörðunartaka

Í Handbók um velferð og öryggi barna í grunnskólum (2014) kemur fram að skólinn skuli vinna markvisst að forvörnum með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Handbókin vísar einnig í aðalnámskrá (2013) um að í henni komi fram að starfshættir skóla og samskipti séu allra aðila og að áhersla þeirra þátta sé ekki minna mikilvæg en önnur viðfangsefni skólanna til að ná markmiðum ásamt því að stuðla að menntun og velferð. Í lögum alþingis um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna fyrstu greinar kemur fram að ábyrgðaraðilar samkvæmt lögunum skulu fylgjast meðal annars með þáttum sem snúa að velferð og farsæld barna og foreldra ásamt því að meta þörf fyrir þjónustu, vinna að samráði sín á milli með það að leiðarljósi að samfella og samþætting sé í þjónustu í velferð og farsæld barna og foreldra (lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021). Félagsleg vellíðan er einn undirþáttur af heilbrigði sem einnig hefur að geyma líkamlega og andlega vellíðan ásamt því að vera samtvinnað þáttum umhverfis og aðstæðum hvers einstaklings (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011). Nám í félags- og tilfinningahæfni er því þáttur sem ekki eigi að líta framhjá þar sem að einstaklingur sem býr yfir félagslegri hæfni myndar heilbrigðari tengsl við aðra, trúir sterkara á eigin getu ásamt því að vera óhræddari við að koma væntingum og skoðunum sínum áleiðis.    

Upplýst ákvörðunartaka 

Ákvarðanir og ákvarðanartaka er óumflýjanlegur hluti af lífi einstaklinga í starfi eða einkalífi sínu, burtséð frá aldri viðkomandi. Þyngsli ákvarðana aukast með hækkandi aldri, meiri ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum (Harrison, 1999). Eitt af þeim atriðum sem falla undir lykilhæfni í Aðalnámskránni við lok 10. bekkjar sem nemendur eiga að hafa náð er skilningurinn í því hvað felist í lýðræði til þess að vera betur undirbúin til þátttöku í samfélaginu sem virkir borgarar þess (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013). Með möguleika á lýðræðislegri þátttöku í skólastarfi eru sett fram tækifæri til lýðræðisnáms sem gefur nemendum reynslu og getu í að hafa mótandi áhrif á samfélagið (Mennta og menningarmálaráðuneyti, 2013; Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007).

Stækkandi samfélag í hraðri þróun kallar eftir fjölbreyttri getu í að vinna með borgaravitund og samskipti, skólinn er kjörin vettvangur fyrir samræður á málefnalegan hátt með leiðbeiningu kennara í vinnu tengt virðingu og umburðarlyndi mismunandi skoðananna sem getur styrkt gagnrýna hugsun (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007). Verkhyggja Dewey dregur fram mikilvægi lýðræðislegra þátttöku nemenda í skólastarfi í gegnum viðbrögð, samræður, ákvarðanir og ákvarðanatökur til að nemandinn dragi lærdóm af því námi (Dewey, 1927).

Previous
Previous

Félagsleg og tilfinningaleg hæfni

Next
Next

Andleg heilsa