Fræðilegur grunnur
Félags- og tilfinningahæfni (SEL – Social and Emotional Learning) felur í sér hæfni til að þekkja eigin tilfinningar og setja sig í spor annarra, taka ábyrgð á eigin hegðun og skapa jákvæð tengsl við aðra. Hugtakið kom fyrst fram árið 1994 í Bandaríkjunum og hefur síðan þá fengið vaxandi vægi í alþjóðlegri umræðu um menntun og velferð barna. Rannsóknir hafa sýnt að nám í félags- og tilfinningahæfni bætir líðan, eykur námsárangur og dregur úr hegðunarvanda.
SEL og námsumhverfi
Viðmiðunarrammi CASEL (2003), þróaður af hópi kennara og fræðimanna, kjarna félags- og tilfinningahæfni í fimm meginþætti:
Sjálfsmeðvitund (e. self-awareness)
Sjálfsstjórn (e. self-management)
Félagsleg vitund (e. social awareness)
Samskiptahæfileikar (e. relationship skills)
Ábyrg ákvarðanataka (e. responsible decision making)
Í umhverfi sem styður við þessa þætti verða til ákjósanleg námsaðstæður sem byggja á traustum tengslum, öryggi og umhyggju.
Velferð og geðrækt í skóla
Í skýrslu Embættis landlæknis (2019) um geðrækt og forvarnir í skólastarfi er lögð áhersla á að efla markvisst nám í félags- og tilfinningahæfni. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem skortir þessa hæfni eiga oft erfiðara með að takast á við líðan, tengjast öðrum og takast á við áskoranir í daglegu lífi (Roffey, 2011).
Lykilhæfni í aðalnámskrá
Aðalnámskrá grunnskóla (2011) skilgreinir hæfni sem meira en þekkingu og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf, siðferðisstyrk, sköpun, félagsfærni og frumkvæði. Í almennri menntun er lögð áhersla á sjálfsskilning nemenda og hæfni þeirra til að takast á við hlutverk sín í síbreytilegu samfélagi.
Heilsueflandi umhverfi og skólabragur
Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) kemur fram að skólar þurfi að skapa jákvæðan skólabrag og stuðla að heilsueflandi umhverfi þar sem unnið er markvisst að líkamlegum, félagslegum og sálrænum þáttum velferðar. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja skal áherslu á eru jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.
Hæfniviðmið verkefnanna
Verkefni í Skapsmunum eru þverfagleg og byggja á hæfniviðmiðum úr íslensku, samfélagsfræði, myndlist og upplýsingatækni. Markmiðið er að efla hæfni nemenda til að greina tilfinningar, tjá skoðanir sínar, sýna samkennd, vinna í samvinnu og hlusta af virðingu.
Hæfniviðmið í íslensku leggur áherslu á mikilvægi hlustunar í mannlegum samskiptum. Nemendur þurfa að tileinka sér skýran framburð, geta tjáð sig með leikrænni tjáningu, sagt frá atburðum og endursagt efni. Þeir þurfa að geta nýtt sér rafrænt efni og sýnt kurteisi í samskiptum (Aðalnámskrá, 2013).
Myndlist stuðlar að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Hún er vettvangur fyrir sjálfbærnimenntun þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar og tengsl við menningu og umhverfi. Nemendur læra að nota liti og form, skapa myndverk og tjá tilfinningar sínar í gegnum list (Aðalnámskrá, 2013).
Samfélagsgreinar þroska hæfni nemenda til innihaldsríkra samskipta við aðra. Þær byggja á tengslum við fjölskyldu, sjálfsmynd og félagslíf. Nemendur læra um gildi eins og virðingu og umhyggju, öðlast skilning á samfélagi og menningu, og þróa með sér sjálfsmynd og félagsfærni (Aðalnámskrá, 2013).
Markmið verkefnanna
Markmiðið er að efla tilfinningagreind, samskiptahæfni og félagsfærni nemenda. Í myndmennt læra þeir að tjá sig án orða og þróa með sér persónulegan skilning á heiminum í gegnum listræna tjáningu. Verkefnin miða að því að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda.