Hugmyndafræði

hugsmíðahyggjunnar á félags- og tilfinninga hæfni 

Þessi fræðilegi bakgrunnur lýsir hugmyndum sem styðja við markmið Skapsmuna: að efla félags- og tilfinningalæsi barna í gegnum skapandi, þverfaglegt nám í myndlist.

Sýn fræðimannanna

Hugmyndir þessara fræðimanna eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á virka þátttöku nemenda og breytt hlutverk kennara. Þar sem kennarinn er fremur leiðbeinandi en miðlari. Þetta samræmist áherslum Aðalnámskrár grunnskóla (2013) um virka þátttöku nemenda í námi og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Vygotsky og nærþroskabil

Lev Vygotsky setti fram kenningu um svokallað nærþroskabil (Zone of Proximal Development, ZPD). Samkvæmt honum er barn fært um að leysa ákveðin verkefni eitt og sér, en getur náð flóknari hæfni með stuðningi frá fullorðnum eða jafningja. Þessi stuðningur getur verið munnleg leiðsögn, fyrirmynd eða leiðbeining og hjálpar barninu að þróa nýja hæfni.

Vygotsky taldi að börn þróuðu með sér stjórn á eigin hugsun og hegðun í gegnum leik. Leikurinn býður upp á tækifæri fyrir börn til að skipuleggja hugsanir sínar og aðgerðir og stuðlar þannig að sjálfsstjórn og tilfinningalegum þroska.

Uppgötvunarnám Bruners

Jerome Bruner lagði áherslu á uppgötvunarnám sem aðferð þar sem nemendur læra með því að rannsaka, draga ályktanir og byggja ofan á fyrri þekkingu. Hann taldi að slíkt nám efldi innri hvata og styddi við sjálfstæða hugsun og ábyrgð á eigin námi.

Bruner hélt því fram að nemendur læri betur þegar þeir fá að uppgötva reglur og mynstur sjálfir, í stað þess að taka einhliða við upplýsingum. Þetta samræmist þeirri sýn að börn eigi að vera virkir þátttakendur í námi sínu og tengja nýja þekkingu við fyrri reynslu og tilfinningar.

Gardner og fjölgreind

Howard Gardner setti fram fjölgreindakenninguna og hélt því fram að greind manna væri fjölbreytt. Hann flokkaði greind í níu meginflokka og taldi að allir einstaklingar hefðu þessa hæfni í mismiklum mæli. Fjölgreindakenningin gerir ráð fyrir að hægt sé að byggja á styrkleikum hvers nemanda og að nám eigi að vera einstaklingsmiðað.

Kenning Gardner styður við þá sýn að tilfinningagreind og styrkleikagreining séu mikilvægur hluti af námi og velferð nemenda. Með verkefnunum í Skapsmunum er leitast við að skapa aðstæður þar sem börn fá að nota og greina eigin styrkleika.

Tilfinningagreind Golemans

Daniel Goleman hefur skrifað ítarlega um tilfinningagreind og tengir hana við velferð, sjálfsþekkingu og árangur í lífi og námi. Hann heldur því fram að einstaklingur sem þekkir ekki eigin tilfinningar eigi erfitt með að setja sig í spor annarra og sýna samkennd.

Gossen og leiðin til sjálfsstjórnar

Diane Gossen, höfundur uppbyggingarstefnunnar, leggur áherslu á að kennarar kenni nemendum sjálfsaga og sjálfsstjórn í stað þess að beita umbun eða refsingu. Í stað utanaðkomandi hvata er unnið með innri sálarstyrk nemenda og ábyrgð á eigin hegðun. Gossen byggir aðferð sína á rannsóknum William Glasser um grunnþarfir mannsins, ást, öryggi, frelsi, gleði og stjórn og því að börn þurfi að þekkja og meta eigin þarfir til að geta bætt hegðun sína.

Sköpun og menntun hjá Eisner

Elliot Eisner talaði um að listir væru nauðsynlegur þáttur í þroska mannsins og að listnám ætti ekki að vera aukaatriði heldur kjarni í menntun. Sköpun byggir upp sjálfstraust, skynjun, innsæi og hæfni til túlkunar.

Eisner taldi að sköpunarhæfni mætti ekki kenna beint, heldur þyrfti að skapa aðstæður þar sem börn gætu ræktað hana. Hann sagði að með því að fjarlægja listir úr skólastarfi væri hætt við að nemendur glötuðu mikilvægri leið til þroska og sjálfstjáningar.

Piaget og vitsmunaþroski barna

Jean Piaget rannsakaði vitsmunaþroska barna og hélt því fram að börn byggðu þekkingu sína smám saman í gegnum eigin aðgerðir og ígrundun. Hann taldi þau læra með því að uppgötva reglur, mynstur og lögmál í samskiptum sínum við umhverfið.

Dewey og kraftur reynslunnar

John Dewey tengdi nám við reynslu og taldi að lærdómur ætti sér stað þegar einstaklingur ígrundar eigin gjörðir og afleiðingar þeirra. Dewey taldi mikilvægt að nám væri þátttaka í lýðræðislegu samfélagi og byggði á ábyrgð og umhugsun.

Tími og rúm í heimi Kants

Immanuel Kant taldi að skilningur á tíma, rúmi og orsakasamhengi væri forsenda allrar þekkingar. Hugmyndir hans urðu grundvöllur hugsmíðahyggjunnar sem leggur áherslu á að nám byggist á reynslu og vitsmunalegri úrvinnslu einstaklingsins.

Aðalnámskrá grunnskóla

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) kemur fram að lykilhæfni felur í sér að þroska sjálfsvitund og samskiptahæfni, efla gagnrýna hugsun og búa nemendur undir virka þátttöku í samfélagi. Skapsmunir styðja við þessa hæfni með því að bjóða börnum tækifæri til að vinna með eigin tilfinningar, greina styrkleika sína og vinna saman að skapandi verkefnum.

Fjölbreytt áhrif

Verkefnið Skapsmunir er undir áhrifum frá fjölbreyttum fræðilegum nálgunum sem allar leggja áherslu á að barnið sé virkur þátttakandi í námi, njóti frelsis, fái að nota styrkleika sína og þrói sjálfsþekkingu og samkennd. Með því að tengja þessa sýn við listnám og skapandi vinnu skapast jarðvegur fyrir vellíðan, dýpri tengsl og þroska í skólastarfi.

Previous
Previous

Fræðilegur grunnur

Next
Next

Um höfund