Um verkefnið

Skapsmunir er skapandi kennsluverkefni sem miðar að því að efla tilfinningalæsi og félagsfærni barna í gegnum myndlist og samræður.

Tilfinningalæsi snýst um að þekkja og tjá eigin tilfinningar, setja sig í spor annarra og nota þessa færni til að byggja upp jákvæð tengsl og góð samskipti. Tilfinningar hafa áhrif á hvernig við lærum, hugsum og tengjumst öðrum, en þær fá sjaldan nægilegt rými í skólastarfi.

Verkefnið Skapsmunir byggir á þeirri sýn að samkennd, sjálfsvitund og skapandi tjáning eigi að vera hluti af daglegu námi. Börn fá tækifæri til að vinna með eigin líðan á sínum forsendum, með því að skapa, tjá sig og ræða tilfinningar í öruggu rými.

Markmiðið er að styðja kennara í að samþætta sköpun og tilfinningalæsi á einfaldan og manneskjulegan hátt, því að þessi hæfni er ekki aðeins forsenda náms heldur einnig lífsgæða.

Félags- og tilfinningalæsi í ljósi aðalnámskrár

Í Aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að almennt nám eigi að stuðla að sjálfsskilningi nemenda og efla hæfni þeirra til að takast á við verkefni í flóknu og síbreytilegu samfélagi. Hæfni nær lengra en þekking og leikni. Hún felur einnig í sér viðhorf, siðferðisstyrk, tilfinningar, sköpun, félagsfærni og frumkvæði (Aðalnámskrá, 2013). Til þess að nemendur geti þroskast heildrænt þurfa þeir að fá tækifæri til að greina, tileinka sér og miðla bæði tilfinningum og þekkingu.

Í kafla um almenna menntun í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) er einnig lögð áhersla á mikilvægi jákvæðs skólabrags og heilsueflandi umhverfis, þar sem markvisst er hlúð að líkamlegum, sálrænum og félagslegum þáttum velferðar.

Helstu þættir sem styðja við heilsu og vellíðan eru:

  • Jákvæð sjálfsmynd

  • Hreyfing og næring

  • Hvíld og andleg vellíðan

  • Góð samskipti og öryggi

  • Hreinlæti og kynheilbrigði

Next
Next

Tilfinningalæsi í verki